Thomas Muller, leikmaður Bayern Munchen í Þýskalandi, hefur skipt um skoðun í hinni eilífu deilu um hvort að Cristiano Ronaldo eða Lionel Messi séu betri fótboltamenn.
Þessi umræða hefur verið á kreiki í meira en áratug, en margir eru á þeirri skoðun að Ronaldo og Messi séu þeir tveir bestu í sögunni.
Muller hefur áður sagt að honum finnist Messi betri en hefur nú skipt um skoðun.
„Ég vel Ronaldo. Tölfræði mín gegn Messi er mjög góð, ekki á móti Ronaldo,“ segir Muller, en Bayern hefur haft gott tak á Barcelona undanfarin ár.
Messi var hjá Börsungum þar til í fyrra, en hann hafði leikið fyrir félagið allan sinn meistaraflokksferil. Hann fór til Paris Saint-Germain vegna fjárhagsvandræða fyrrnefnda félagsins.
Ronaldo er á mála hjá Manchester United, eftir að hafa snúið aftur til félagsins í fyrra.