Rúmt ár er síðan Cristiano Ronaldo sneri aftur til Manchester United, tólf árum eftir að hann yfirgaf félagið fyrir Real Madrid.
Sjálfur átti Portúgalinn 37 ára gamli gott tímabil í fyrra en United náði hins vegar ekki sæti í Meistaradeild Evrópu.
Ronaldo vill leika í Meistaradeildinni og reyndi hvað hann gat til að komast frá United í sumar. Það tókst hins vegar ekki.
Hann varð því eftir hjá United, þar sem hann er varamaður undir stjórn Erik ten Hag.
Enskir miðlar hafa nú rifjað upp ræðu Ronaldo frá því hann kom til félagsins í fyrra. Innihald hennar vekur athygli í ljósi stöðu hans nú.
„Ég er kominn aftur til Manchester United af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi elska ég félagið og í öðru lagi elska ég sigurhugarfarið sem er allsráðandi í þessu félagi,“ sagði Ronaldo í ræðunni til liðsfélaga.
„Ég er ekki að koma aftur sem klappstýra. Ef þið viljið ná árangri, verðið þið að elska félagið af öllu hjarta.“
„Þið verðið að borða, sofa og berjast fyrir þetta félag. Hvort sem þið spilið eða ekki þá þurfið þið að styðja við liðsfélaga ykkar og gefa allt sem þið eigið fyrir félagið. Ég er kominn til að vinna og ekkert annað. Að sigra veitir okkur gleði. Mig langar að vera glaður, langar ykkur það? Þið eruð allir ótrúlegir leikmenn og ég hef trú á ykkur, annars hefði ég ekki komið aftur.“
Ronaldo er nú orðinn varamaður hjá United. Hann er hins vegar duglegur að styðja sína menn af bekknum. Ummælin um að hann hafi ekki ætlað að verða klappstýra hafa því vakið athygli.