Talið er að Heimir Hallgrímsson taki við karlalandsliði Jamaíka fyrir helgi. Starfið er spennandi en þó hefur verið töluvert fjaðrafok í kringum knattspyrnusamband Jamaíka undanfarið.
Þessi fyrrum landsliðsþjálfari karlaliðs Íslands hefur verið án starfs í þjálfun í rúmt ár eða frá því að samningur hans við katarska félagið Al Arabi rann sitt skeið á síðasta ári. Hann hefur þó verið ráðgjafi hjá ÍBV í sumar.
Vinnubrögð landsliðs Jamaíka hafa verið gagnrýnd. Einn af þeim sem hefur gert það er Andre Blake, markvörður. Hann sagði að vandamál utan vallar væru mörg og að það hefði áhrif á gengi landsliðsins innan hans.
Hann var ekki valinn í nýjasta landsliðshópinn, sem mætir Argentínu síðar í mánuðinum. Vakti það mikla athygli, en hann er fyrirliði liðsins.
Sjálfur segist Blake ekki hafa fengið skýringar á þessu og ýjar þannig að því að ummæli hans hafi haft áhrif á valið.
Cedella Marley, dóttir tónlistarmannsins Bob Marley, er ein af þeim sem hefur gagnrýnt sambandið fyrir þetta.
„Hvernig getur fyrirliði landsliðsins ekki verið valinn í landsliðshópinn fyrir sögulegan leik gegn Argentínu. Hvers vegna finnst mér eins og verið sé að refsa honum fyrir að standa upp og gagnrýna knattspyrnusamband Jamaíka? Allur heimurinn er að horfa á ykkur. Þið getið blekkt einhverja en ekki alla,“ skrifar Cedella Marley í færslu á Instagram.