Svo virðist sem Heimir Hallgrímsson sé að taka við landsliði Jamaíka. Fari svo að hann taki við mun hann þjálfa nokkra spennandi leikmenn.
433.is sagði frá því í morgun að Heimir Hallgrímsson væri staddur á Keflavíkurflugvelli, þaðan sem hann ferðaðist til Jamaíka.
Það er ekki allt frágengið á milli Heimis og knattspyrnusambands Jamaíka en viðræður eru langt á veg komnar.
Heimir var síðast þjálfari katarska félagsins Al-Arabi en hann yfirgaf liðið á síðasta ári og hefur undanfarið verið ráðgjafi Hermanns Hreiðarssonar hjá ÍBV í Bestu deild karla.
Taki Heimir við þjálfun Jamaíka mun hann stýra Ravel Morrison, liðsfélaga Guðlaugs Victors Pálssonar hjá DC United í Bandaríkjunum.
Sir Alex Ferguson sagði Morrison eitt sinn vera besta unga leikmann sem hann hefur séð. Þá var hann stjóri hans hjá Manchester United. Miðjumaðurinn er í dag 29 ára gamall en ferill hans fór aldrei á það flug sem vonast var eftir.