Kristian Nökkvi Hlynsson er gjaldgengur í danska landsliðið í framtíðinni, verði krafta hans óskað þar og hafi leikmaðurinn áhuga á því.
Hinn 18 ára gamli Kristian er leikmaður Ajax í Hollandi og hefur þegar spilað með aðalliði stórveldisins.
Kristian er einnig mikilvægur hlekkur í U-21 árs landsliði Íslands.
Fótbolti.net vekur athygli á því að Nökkvi sé gjaldgengur í landslið Danmerkur, þar sem leikmaðurinn fæddist í Óðinsvéum og bjó þar fyrstu tvö ár ævi sinnar.
Þó þetta sé möguleiki á pappír þá er ekkert sem bendir til þess að Kristian myndi velja að spila fyrir hönd Danmerkur frekar en Íslands í framtíðinni.