Luis Diaz gekk í raðir Liverpool frá Porto í janúar síðastliðnum. Hann hefði þó getað farið annað.
Fjölmörg félög höfðu áhuga á Kólumbíumanninum, þar á meðal þrjú úr ensku úrvalsdeildinni, hið minnsta.
Samkvæmt Fabrizio Romano, sérfræðingi í félagaskiptamálum knattspyrnumanna, var Tottenham nálægt því að festa kaup á Diaz. Þá hafði West Ham einnig áhuga.
Að lokum vildi leikmaðurinn þó ólmur spila undir stórn Jurgen Klopp og leika í Meistaradeild Evrópu.
Hinn 25 ára gamli Diaz hefur frá komu sinni til Liverpool skorað tíu mörk í 34 leikjum. Þá hefur hann lagt upp önnur fimm.
Liverpool hefur farið afar illa af stað á þessari leiktíð. Liðið situr í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar með níu stig eftir sex leiki. Þá tapaði Liverpool fyrsta leik sínum í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu á leiktíðinni gegn Napoli, 4-1.