Jónatan Ingi Jónsson hefur farið frábærlega af stað með Sogndal í Noregi en liðið leikur í næst efstu deild.
Jónatan komst á blað fyrir Sogndal í 3-3 jafntefli við Bryne í dag en hann skoraði fyrsta mark liðsins í leiknum.
Valdimar Þór Ingimundarson var einnig í byrjunarliði Sogndal og lagði hann upp annað mark liðsins á Isaac Twum.
Í Danmörku lék Alfreð Finnbogason sinn annan leik fyrir Lyngby sem gerði 1-1 jafntefli við AaB. Freyr Alexandersson er þjálfari Lyngby en liðið er á botni deildarinnar með aðeins þrjú stig.
Í sömu deild lék Mikael Neville Anderson með AGF sem tapaði 1-0 gegn Silkeborg. Stefán Teitur Þórðarson spilaði allan leikinn fyrir Silkeborg.
Arnór Sigurðsson, Arnór Ingvi Traustason og Ari Freyr Skúlason voru allir í byrjunarliði Norrköping í Svíþjóð sem tapaði 2-1 gegn Malmö.
Arnór lagði upp eina mark Norrköping en Andri Lucas Guðjohnsen kom einnig inná sem varamaður á 58. mínútu.
Hákon Rafn Valdimarsson stóð í marki Elfsborg í sömu deild er liðið vann 2-0 sigur á Sundsvall.
Í efstu deild Noregs varði Patrik Sigurður Gunnarsson mark Viking sem vann HamKam, 2-1.
Brynjólfur Andersen Willumsson skoraði í öðrum leiknum í röð fyrir Kristiansund sem vann 3-2 sigur á Valerenga. Brynjar Ingi Bjarnason var ónotaður hjá gestaliðinu í tapinu.
Alfons Sampsted var auðvitað á sínum stað í bakverði Bodo/Glimt og lék allan leikinn er liðið tapaði 3-2 gegn Tromso.