Thomas Tuchel gengur í burtu með þrettán milljónir punda, eftir að hafa verið rekinn sem stjóri Chelsea í gær. Hann er sagður hafa verið að missa tökin á leikmannahópnum áður en hann var rekinn.
Samband Tuchel við stjörnuleikmenn Chelsea, sem og eigandann Todd Boehly, eru sagðar meginástæður fyrir því að hlutirnir hættu að ganga upp og að Þjóðverjinn hafi nú verið látinn fara.
Talið er að skilnaður Tuchel við eiginkonu sína, Sissi, í maí hafi haft mikil áhrif á hann og gengi Chelsea. Ástarlíf stjórans var oft á vörum leikmanna.
„Hann var hættur að ná í gegn til leikmanna. Það hjálpaði ekki að sumir leikmenn voru að tala um einkalíf hans,“ segir einn heimildamaður The Sun.
„Það var litið á hann öðruvísi eftir skilnaðinn. Hann var ekki lengur snillingurinn. Hann var erfiður karakter og það var ekki alltaf ljóst hvað hann vildi.“
„Allt þetta spilaði inn í erfiða byrjun á tímabilinu.“