Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, hefur svarað Viðari Halldórssyni formanni FH í kjölfars harðorðs pistils þess síðarnefnda um ákvörðun bæjarins um að reisa knatthöll á svæði Hauka við Ásvelli.
FH-ingar hafa á síðustu árum reist hús við sitt svæði með aðkomu bæjarins en Viðar segir framkvæmdina á Ásvöllum alltof dýra.
„Í dag virðast bæjaryfirvöld vera á lokametrum við ákvarðanatöku um byggingu nýs knatthúss á Ásvöllum sem að lágmarki mun kosta 4.5 milljarða, byggja einn fótboltavöll fyrir ámóta upphæð og kostar að byggja góðan grunnskóla eða fjóra leikskóla,“ skrifar Viðar meðal annars í pistli sínum.
Þá segir Viðar Hafnarfjarðarbæ fara illa með fjármuni bæjarins og að auðveldara væri að ráðast í mun ódýrari framkvæmd. Hann bendir á þá leið sem FH-ingar hafa farið með því að reisa yfirbyggðar knatthallir sem ekki eru upphitaðar.
Lesa má pistil Viðars í heild hér.
Rósa segir í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins að Viðar fari frjálslega með tölur í pistli sínum og að orð hans komi ekki á óvart. „Þessi viðbrögð koma mér ekki á óvart og því miður ekki í fyrsta sinn sem formaður FH stígur svo harkalega fram og berst gegn þessari framkvæmd. Held það hljóti að vera einstakt að forsvarsmaður íþróttafélags beiti sér svo ákaft gegn uppbyggingu íþróttamannvirkis annars íþróttafélags. Þarna er farið vægast sagt frjálslega með kostnaðartölur. Mikil þörf er á knatthúsi á Ásvöllum enda er húsið er í þeim hluta bæjarins þar sem nær öll íbúðauppbygging síðustu ára hefur verið. Húsið mun þannig þjóna nýjasta hverfi bæjarins en íbúar þess verða um 13 þúsund innan nokkurra ára,“ segir Rósa.
Hún bendir einnig á að Haukar hafi afsalað sér hluta íþróttasvæðis síns til fjármögnunnar hússins. Bærinn fékk 1,3 milljarð króna upp í húsið með sölu þeirra lóða.
„Mikil undirbúningsvinna hefur farið fram undanfarin ár vegna þessarar framkvæmdar. Þarna verður allrar hagkvæmni gætt og þarna mun rísa hús sem mun nýtast vel. Allir flokkar studdu þessa uppbyggingu á Ásvöllum í síðustu kosningum og fyrsta verk nýrrar bæjarstjórnar í sumar var að samþykkja að fara í útboð vegna framkvæmdarinnar.“
Nánar er rætt við Rósu á vef Fréttablaðsins.