Réttarhöldin yfir Benjamin Mendy, sem er á mála hjá Manchester City, halda áfram.
Mendy er sakaður um átta nauðganir, eitt kynferðisbrot og eina tilraun til nauðgunar. Atvikin eiga að hafa átt sér stað frá október 2018 til ágúst 2021.
Einnig er réttað yfir vini Mendy, Louis Saha Matturie. Sá er sakaður um átta nauðganir og fjögur kynferðisbrot. Alls eru þrettán konur sem tengjast brotum þeirra félaga.
Ein konan var 19 ára gömul þegar Mendy á að hafa nauðgað henni. Hún segir að hún hafi verið stödd í sundlaugapartíi heima hjá Mendy í júlí á síðasta ári.
Kviðdómur fékk að sjá myndband af viðtali sem hún veitti lögreglu í september vegna málsins. Hún og vinkona hennar höfðu verið að drekka í miðborg Manchester, áður en þær fóru heim til Mendy.
Stelpan segist hafa drukkið vodka, tekíla og kampavín og að hún hafi verið „átta af tíu“ drukkin.
„Ég var orðin nokkuð drukkin. Ég man eftir að hafa verið í lauginni með strákum sem ég hafði ekki hitt áður. Allir voru í lauginni en ég man ekki eftir að hafa yfirgefið sundlaugarherbergið.“
„Það næsta sem ég man er að ég var inni í stofu með Ben (Mendy). Ég var á sófanum og hann var fyrir aftan mig. Hann hélt höndum mínum fyrir aftan bak og var að stunda kynlíf með mér og sagði „ekki hreyfa þig, ekki hreyfa þig.“ Hann sagði þetta þrisvar eða fjórum sinnum.“
„Ég var að reyna að komast í burtu en ég get ekki hreyft hendurnar. Ég var frekar hrædd. Ég fann fyrir honum inni í mér og hendur hans héldu nokkuð þétt um mig.“