Á föstudag verður dregið í umspil um sæti í lokakeppni HM 2023. Ísland er þar á meðal þátttökuþjóða, eftir grátlegt 1-0 tap gegn Hollandi í gær um að fara beint á HM.
Níu landslið munu alls taka þátt í umspilinu í Evrópu. Þar er farið í útsláttarkeppni um sæti á HM. Þau þrjú lið sem eru með besta árangurinn af þeim liðum sem hafna í öðru sæti fara beint í aðra umferð, þar sem sigurvegararnir þrír úr einvígum fyrstu umferðarinnar bætast síðar við.
Ísland stendur vel að vígi þar og er með annan besta árangur liða í öðru sæti. Sviss og Írland fylgja Íslandi beint í aðra umferð.
Austurríki, Belgía, Skotland, Portúgal, Wales og Bosnía leika svo um síðustu þrjú sætin í annari umferð. Þegar þrjú þeirra eru komin þangað verður öllum liðum blandað saman í einn pott. Ísland getur því alls mætt átta liðum í annarri umferð þann 11. október.
Um eins leiks einvígi er að ræða í báðum umferðum. Það lið sem dregið er á undan fær heimaleik.
Sigri Ísland einvígi sitt í annarri umferð í venjulegum leiktíma eða eftir framlengingu fer liðið beint á HM. Ef það vinnur sigur eftir vítaspyrnukeppni er mögulegt að liðið raðist í þriðja sæti af þeim liðum sem sigra umspilið. Tvö lið af þeim þremur sem sigra einvígi sitt í annarri umferð fara beint á mótið. Liðið sem raðast í þriðja sæti fer í tíu liða mót á Nýja-Sjálandi í febrúrar, þar sem leikið er þvert á heimsálfur um þrjú síðustu sætin á HM.
Það lið með lakasta árangurinn af sigurvegurunum þremur úr annarri umferð fer í þá keppni. Til að finna út liðið með lakasta árangurinn er tekinn inn í stigafjöldi og markatala úr undanriðlunum, auk stiga sem gefin eru fyrir leikina í annarri umferð umspilsins. Þar eru þrjú stig gefin fyrir að sigra í venjulegum leiktíma eða framlengingu, en aðeins eitt fyrir að sigra í vítaspyrnukeppni.
Eini möguleikinn fyrir annað lið til að hoppa upp fyrir Ísland og senda stelpurnar okkar í tíu liða mótið á Nýja-Sjálandi, væri því ef íslenska liðið vinnur einvígi sitt í vítaspyrnukeppni.
Í stuttu máli, sigur í venjulegum leiktíma eða framlengingu í annarri umferð umspilsins þann 11. október mun duga Íslandi beint inn á HM.