Thomas Tuchel var í dag rekinn frá Chelsea en þessar fréttir komu mörgum á óvart í morgunsárið.
Chelsea spilaði sinn fyrsta Meistaradeildarleik í gær og tapaði þá 1-0 gegn Dinamo Zagreb frá Króatíu.
Chelsea hefur ekki heillað heldur í ensku úrvalsdeildinni og viðurkenndi Tuchel eftir leik að hann væri hluti af vandamálinu.
Hér fyrir neðan má lesa hluta af síðasta viðtali Tuchel sem stjóra Chelsea.
,,Þetta er sama sagan og alltaf. Við byrjum ágætlega en nýtum ekki færin,“ sagði Tuchel í samtali við BT Sport.
,,Við fáum á okkur mark úr einni skyndisókn sem var alltof auðvelt og þaðan í frá vorum við í vandræðum.“
,,Það er of mikið að fara yfir, ég er hluti af því. Við erum klárlega ekki þar sem við viljum vera og hvar við getum verið.“
,,Þetta er á mér og okkur, við þurfum að finna lausn. Eins og er þá vantar allt saman.“