Fyrrum knattspyrnumaðurinn Rúrik Gíslason er gestur í nýjasta þætti Dr. Football, þar sem hann segir meðal annars skemmtilega sögu af Eric Djemba-Djemba, fyrrum liðsfélaga sínum.
Kamerúninn lék með Manchester United og Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni frá 2003 til 2007. Ferill hans fór hins vegar niður brekkuna eftir það. Frá 2009 til 2012 var hann liðsfélagi Rúriks hjá OB í Danmörku.
Rúrik var spurður út í hinn skautlega Djemba-Djemba í þættinum. „Það minnir mig á það, hann skuldar mér pening,“ segir Rúrik og hlær.
„Það er einn skrautlegur gæi, en frábær, yndislegur. Það vantar kannski nokkrar sellur.“
Rúrik segir að Djemba-Djemba hafi oft vantað pening. „Tólfta hvers mánaðar vantaði hann alltaf eitthvað smá cash, eitthvað vesen á heimabankanum, ekkert honum að kenna.“
Það er athyglisvert að fyrrum leikmaður Manchester United hafi átt í svo miklum fjárhagsvanda. „Ég held hann hafi átt fjórtán bíla þegar hann var hjá Manchester United,“ segir Rúrik Gíslason léttur.