Í kvöld er komið að stóru stundinni hjá íslenska kvennalandsliðinu. Liðið mætir Hollandi ytra í hreinum úrslitaleik um að komast beint á Heimsmeistaramótið í Ástralíu og Nýja-Sjálandi á næsta ári.
Ísland er í efsta sæti undanriðilsins, stigi á undan Hollandi. Jafntefli dugir því stelpunum okkar í kvöld til að tryggja sér efsta sæti riðilsins og komast beint á HM. Liðið sem hafnar í öðru sæti fer í umspil.
Leikurinn hefst klukkan 18:45 og verður sýndur beint á RÚV.
Umspilið
Fari það svo að Ísland tapi fyrir Hollandi í kvöld þarf liðið að fara í umspil um sæti á HM. Fyrirkomulag umspilsins er langt frá því að vera einfalt, en er útskýrt í stórum dráttum hér. Margar sviðsmyndir eru í boði. Íslenska liðið vonast auðvitað eftir því að vangaveltur um hugsanlega leið og mótherja í umspilinu verði með öllu óþarfar.
Níu landslið munu alls taka þátt í umspilinu. Þar er farið í útsláttarkeppni um sæti á HM. Þau þrjú lið sem eru með besta árangurinn af þeim liðum sem hafna í öðru sæti fara beint í aðra umferð, þar sem sigurvegararnir þrír úr einvígum fyrstu umferðarinnar bætast síðar við. Sem stendur er aðeins eitt lið í öðru sæti með betri árangur en Ísland, sem er á toppi síns riðils.
Af þeim þremur liðum sem sigra einvígi sín í annarri umferð, fara tvö þeirra sem eru með besta árangurinn í undanriðlinum beint á HM. Það lið sem stendur verst að vígi af þessum þremur þarf að fara í aðra keppni.
Sú keppni er leikin þvert á heimsálfur og verður eins konar generalprufa fyrir sjálft lokamótið. Verður hún haldin í Nýja-Sjálandi. Tíu liðum verður þar skipt upp í þrjá riðla, þar sem sigurvegarar riðlanna tryggja sér þrjú sæti á HM.