Cristiano Ronaldo var orðaður burt frá Manchester United í allt sumar. Að lokum fór hann þó ekki neitt og er enn á Old Trafford, þar sem hann er orðinn varamaður undir stjórn Erik ten Hag.
Ronaldo reyndi hvað hann gat til að komast í annað félag í sumar, þar sem hann vill leika í Meistaradeild Evrópu. Að lokum virtist þó ekkert félag til í að taka sénsinn á honum.
Napoli var eitt af þeim félögum sem Ronaldo var mikið orðaður við. Cristiano Giuntoli, stjórnarformaður félagsins, segir það þó aldrei hafa verið nálægt því að fá Portúgalann.
„Mér þykir það leitt en við vorum aldrei í raunverulegum viðræðum við Manchester United um að kaupa Ronaldo í sumar,“ segir Giuntoli.
Ronaldo þarf að láta sér það að góðu verða að leika í Evrópudeildinni á komandi leiktíð. United hefur leik þar á fimmtudag.