Vísir fjallar í dag um það að kvennalandsliðið muni mögulega njóta áfengis í boði Knattspyrnusambands Íslands ef vel fer gegn Hollandi í landsleiknum mikilvæga í kvöld.
Ísland er í efsta sæti undanriðilsins, stigi á undan Hollandi. Jafntefli dugir því stelpunum okkar í kvöld til að tryggja sér efsta sæti riðilsins og komast beint á HM. Liðið sem hafnar í öðru sæti fer í umspil.
Stjórn KSÍ samþykkti síðasta haust að áfengi yrði leyft í landsliðsferðum ef frábær árangur náist, þó almennt sé það ekki leyft. Þetta segir Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, við Vísi.
Hallbera Guðný Gísladóttir, sem lék með Íslandi í lokakeppni Evrópumótsins í sumar en lagði skóna að hilluna að því loknum, er hneyksluð á áherslunum í fréttaflutningi Vísis.
„Á mögulega stærsta leikdegi kvennalandsliðsins frá upphafi er eðlilega verið að skrifa frétt um það hvort fullorðið fólk ætli sér virkilega að skála í kampavíni ef það kemst á HM í fyrsta skipti. Jahérnahér,“ skrifar Hallbera á Twitter.
Á mögulega stærsta leikdegi kvennalandsliðsins frá upphafi er eðlilega verið að skrifa frétt um það hvort fullorðið fólk ætli sér virkilega að skála í kampavíni ef það kemst á HM í fyrsta skipti. Jahérnahér… 🥂
— Hallbera Gisladottir (@HallberaGisla) September 6, 2022