Eric Bailly, sem leikur á láni hjá Marseille frá Manchester United, sakar enska félagið um að taka enska leikmenn fram yfir aðra.
Sjálfur er Bailly frá Fílabeinsströndinni og er hann landsliðsmaður þar. Hann hefur verið á mála hjá United síðan 2016, en var lánaður burt í sumar.
„Manchester United ætti ekki að taka enska leikmenn fram yfir aðra og gefa öllum tækifæri. Félagið ætti að ýta undir samkeppni í klefanum. Ég upplifði það alltaf þannig að ensku leikmennirnir væru í uppáhaldi,“ segir Bailly, en margir vilja meina að hann sé með þessum orðum að skjóta á Harry Maguire, fyrirliða United.
„Þetta er ekki svona hjá Chelsea eða öðrum stórum félögum í ensku úrvalsdeildinni. Sumir taka því sem sjálfsögðum hlut að vera í byrjunarliðinu, það veikir liðið.“
Bailly vonast til að nýr stjóri United geti breytt menningunni hjá félaginu.
„Sem betur fer er Erik ten Hag sterkur karakter og ég vona að hann geti breytt þessu.“