Fjölmiðlamaðurinn og Arsenal-stuðningsmaðurinn Piers Morgan hefur skotið á Mikel Arteta eftir ummæli Thomas Tuchel um Pierre-Emerick Aubameyang.
Arteta, sem er stjóri Arsenal, losaði sig við Aubameyang í janúar. Gabonmaðurinn fór til Barcelona. Arteta taldi hann hafa slæm áhrif á liðið og verkefnið.
Morgan hefur margoft lýst yfir óánægju sinni með ákvörðun Arteta. Hann hefur til að mynda sakað Spánverjann um að leggja framherjann í einelti.
„Ég hef engar stórar áhyggjur. Hann er góður drengur og frábær karakter,“ sagði Thomas Tuchel á dögunum, eftir að Aubameyang gekk í raðir Chelsea. Þjóðverjinn er stjóri liðsins.
„Ég er svo ringlaður. Ég hélt að hann væri martröð þjálfarans og hafi hræðileg áhrif,“ sagði Morgan eftir ummæli Tuchel.