Thomas Tuchel, stjóri Chelsea, hefur tjáð sig um stöðu framherjans Pierre Emerick Aubameyang sem kom til liðsins á lokadegi félagaskiptagluggans.
Aubameyang er meiddur þessa stundina en brotist var inn til hans í Barcelona sem varð til þess að hann kjálkabrotnaði.
Tuchel hefur staðfest að Aubameyang sé kominn með grímu til að hjálpa þessum meiðslum en veit ekki hvort hann geti spilað næsta leik liðsins sem er á morgun gegn Zagreb í Meistaradeildinni.
,,Við þurfum að sjá til. Hann er kominn með grímuna og læknarnir segja mér að honum líði þægilega með hana á,“ sagði Tuchel.
,,Hann væri venjulega í lagi en við þurfum að skoða þetta og sjá hvort hann geti æft án snertinga, smá snertinga og svo eðlilega.“
,,Við þurfum að sjá hvernig honum líður, það er of erfitt að spá fyrir um hvenær hann spilar en hann mun æfa.“