Casemiro, leikmaður Manchester United, var alltaf mikill aðdáandi miðjumannsins Paul Scholes.
Scholes er einn besti miðjumaður í sögu Man Utd og er í guðatölu hjá flestum ef ekki öllum stuðningsmönnum félagsins.
Casemiro fylgdist með enska boltanum er hann var yngri og leit upp til Englendingsins sem og Zinedine Zidane sem lék með Real Madrid og þjálfaði hann einnig hjá félaginu.
Casemiro gekk í raðir Man Utd frá einmitt Real á dögunum og kostar um 70 milljónir punda.
,,Þegar kemur að fyrirmyndum á miðjunni þá var það Zinedine Zidane en hjá Manchester United var það alltaf Paul Scholes,“ sagði Casemiro.
,,Litli gaurinn [Scholes] var mjög góður og það sem ég elskaði við hann er að hann var smávaxinn en var samt sem áður harður af sér og sanngjarn.“