Aron Jóhannsson, leikmaður Vals, var fyrsti gestur í Íþróttavikunni með Benna Bó sem hóf göngu sína að nýju eftir sumarfrí. Íþróttavikan er á dagskrá á föstudögum á Hringbraut.
Aron fæddist í Bandaríkjunum og eftir hvert tímabil hefur hann átt í formlegum og óformlegum viðræðum við lið í MLS deildinni. Kerfið þar í landi er aðeins öðruvísi en við eigum að þekkja frá Evrópu því lið eiga rétt á leikmönnum.
„Real Salt Lake átti í raun rétt á mér. Ég fékk alltaf tilboð frá þeim fyrst. Ég eiginlega skil þetta ekki nógu vel sjálfur.“
Eftir tímabilið með Hammarby, þar sem Aron var í banastuði, kom fyrirspurn frá sjálfu Inter Miami sem David Beckham er eigandi að. Það gekk þó ekki upp. „Ég hefði spilað frítt þar en ég sit hér í dag og hef ekki spilað fyrir liðið,“ sagði hann léttur.