Aron Jóhannsson, leikmaður Vals, var fyrsti gestur í Íþróttavikunni með Benna Bó sem hóf göngu sína að nýju eftir sumarfrí. Íþróttavikan er á dagskrá á föstudögum á Hringbraut en framundan er stórskemmtilegur íþróttavetur þar sem HM í Katar er hápunkturinn.
Aron spilaði á HM með Bandaríkjunum árið 2014 en hann rifjaði upp í þættinum þegar þáverandi landsliðsþjálfari Bandaríkjana Jurgen Klinsman hringdi.
„Ég var með missed call frá númeri sem ég þekkti ekki. Svo komu skilaboð um að það væru skilaboð í talhólfinu og ég hlustaði á það. Þá var þetta Klinsman og ég hringdi í Agga umboðsmanninn minn og spurði hvort hann væri að fokka eða rugla eitthvað í mér. Þá var ég aldrei búinn að pæla eitthvað í þessu að það gæti verið möguleiki að spila fyrir Bandaríkin. Þarna kom fyrsta samtalið og svo töluðum við saman í rúmlega ár áður en ég skipti.“
Aðspurður hvort hann ætti þessi sögulegu skilaboð ennþá, sem breyttu öllu fyrir fótboltaferil hans, viðurkenndi Aron að þau hefðu horfið með gamla símanum hans.