Sara Björk Gunnarsdóttir átti frábæran leik fyrir Ísland í kvöld er liðið mætti Hvíta-Rússlandi í undankeppni HM.
Landsliðsfyrirliðinn skoraði tvö mörk í öruggum 6-0 sigri Íslands sem er í toppsæti C-riðils fyrir lokaumferðina.
Þar mun Ísland spila við Holland í úrslitaleik um hvort liðið fer alla leið í lokakeppni HM.
,,Frábær tilfinning, við vinnum 6-0 og erum að skapa mikið af færum og förum inn í hálfleik í 2-0. Við erum með tök á leiknum frá byrjun til enda, frábær liðsframmistaða,“ sagði Sara.
,,Við ákváðum frá byrjun að setja tóninn og fara í öll návígi og vinna þau og þær vildu á köflum pressa en við leystum það vel. Mér fannst þær aldrei komast inn í leikinn.“
,,Það er frábær tilfinning að koma aftur á Laugardalsvöll og spila fyrir framan fólkið okkar og skora líka, það er of langt síðan en fyrst og fremst að ná þessum sigri og búa til úrslitaleik í Hollandi.“
Nánar er rætt við Söru hér fyrir neðan.
DJI_0438