Knattspyrnudeild HK hefur verið sektuð um hundrað þúsund krónur vegna hegðunnar stuðningsmanna á leik liðsins gegn Breiðabliki í Mjólkurbikarnum í síðasta mánuði.
Stuðningsmenn HK létu öllum illum látum í stúkunni og sungu níðsöngva um Damir Muminovic, leikmann Blika. Var hann meðal annars kallaður barnaníðingur.
Af vef KSÍ
Á fundi aga- og úrskurðarnefndar KSÍ þann 30. ágúst 2022, var tekin fyrir skýrsla frá eftirlitsmanni KSÍ á leik HK og Breiðabliks í Bikarkeppni KSÍ þann 19. ágúst.
Það var álit nefndarinnar að framkoma áhorfenda HK í garð leikmanns Breiðabliks hafi verið vítaverð og félli undir ákvæði 12.9.d) í reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál. Á þeim grundvelli ákvað aga- og úrskurðarnefnd KSÍ að sekta Knattspyrnudeild HK. Með tilliti til viðbragða og ráðstafana knattspyrnudeildar HK vegna þeirra atburða sem lýst er í skýrslu eftirlitsmanns, var upphæð sektar knattspyrnudeildar HK hæfilega ákveðin kr. 100.000.