Íslenska kvennalandsliðið tekur á móti Hvíta-Rússlandi í gríðarlega mikilvægum leik í undankeppni HM 2023 í kvöld klukkan 17:30. Leikurinn fer fram á Laugardalsvelli.
Ísland er í öðru sæti undanriðilsins sem stendur, tveimur stigum á eftir Hollandi. Stelpurnar okkar eiga hins vegar eftir að leika tvo leiki en þær hollensku aðeins einn, gegn Íslandi.
Íslenska liðið getur því komið sér í kjörstöðu fyrir leikinn gegn Hollandi, sem fer fram ytra á þriðjudag, með sigri á Hvít-Rússum í kvöld.
Miðasala á leikinn gengur vel, en í samtali við Fréttablaðið segir Ómar Smárason, deildarstjóri samskiptadeildar Knattspyrnusambands Íslands, að 4400 miðar séu seldir á völlinn.
Auðvitað eru allir hvattir til að næla sér í miða á völlinn og styðja stelpurnar okkar til sigurs. Það má nálgast miða með því að smella hér.