Dele Alli fór á dögunum til Tyrklands eftir misheppnaða hálfs árs dvöl hjá Everton.
Fyrrum knattspyrnustjórinn Harry Redknapp var allt annað en hrifinn af frammistöðu leikmannsins í Liverpool-borg.
„Hann var hræðilegur, hræðilegur. Ég horfði á hann spila. Hann missti boltann, gengur svo, hleypur ekki. Ég veit ekki hvað kom fyrir hann,“ segir Redknapp, en Alli þótti eitt sinn einn mest spennandi leikmaður heims. Þá var hann á mála hjá Tottenham.
„Þegar hann fór til Everton mætti hann á Rolls Royce á verkamannasvæði þar sem fólk lifir fyrir fótboltann. Hvað heldur hann að hann sé?“ spyr Redknapp.
„Hann hefði getað farið til United, Liverpool, City eða hvert sem er þegar hann var hjá Tottenham. En svo tapaði hann hungrinu.“
„Mun hann koma sér aftur á strik? Af hverju gerði hann það ekki hjá Everton? Tækifæri hans eru að renna út.“