Samkæmt frétt Marca á Spáni hafnaði Manchester City möguleikanum á að fá Neymar frá Paris Saint-Germain í sumarglugganum.
Félagaskiptalugganum í helstu deildum Evrópu var skellt í lás í gærkvöldi og verður Neymar áfram hjá PSG.
Franska félagið var til í að losa sig við Brasilíumanninn þar sem samband hans og Kylian Mbappe, stærstu stjörnu liðsins, er sagt stirt.
City var hins vegar ekki til í að fá hinn þrítuga Neymar og heldur hann sig því í frönsku höfuðborginni.
Neymar varð dýrasti leikmaður heims þegar PSG keypti hann frá Barcelona á 200 milljónir punda sumarið 2017. Hann á enn þrjú ár eftir af núgildandi samingi sínum við félagið.