Jamie Carragher, sparkspekingur og fyrrum leikmaður Liverpool, segir að Arthur Melo, nýr miðjumaður liðsins, sé ekki framtíðarlausn en hann skilji það að fá hann til skamms tíma.
Arthur gekk í gær í raðir Liverpool frá Juventus. Brasilíski miðjumaðurinn verður á láni hjá Liverpool út þessa leiktíð. Svo á enska félagið eftir að kaupa hann.
Liverpool hefur verið í vandræðum á miðjunni á leiktíðinni. Því ákvað félagið að sækja Arthur á lokadegi félagaskiptagluggans í gær.
„Ég held að Arthur sé ekki lausn Liverpool næstu þrjú eða fjögur árin. Þeir þurfa yngri og kraftmeiri leikmann. Ég held að Arthur sé kominn inn til að fylla í skarð. Þess vegna er Liverpool að fá hann á láni á síðustu stundu,“ segir Carragher.
Arthur er 26 ára gamall. Hann hefur verið á mála hjá Juventus síðan 2020. Þar áður var hann hjá Barcelona.
„Miðjumaðurinn sem Liverpool þarf er ekki á lausu núna, svo ég held að það sér skynsamlegt að fá mann á láni,“ segir Carragher, en Liverpool hefur til að mynda verið sagt hafa áhuga á Jude Bellingham.