Erik ten Hag, stjóri Manchester United, segir þann hóp sem hann er nú með í höndunum vera hópinn sem hann muni notast við þar til næsti félagaskiptagluggi opnar í janúar.
United er að ganga frá kaupum á Antony frá Ajax. Þá er Martin Dubravka að koma frá Newcastle. Verða það líklega síðustu kaup sumarsins hjá Rauðu djöflunum. Félagið hafði verið orðað við Sergino Dest, hægri bakvörð Barcelona og fleiri.
Það stefnir þó ekki í það að hann komi þar sem hægri bakvörðurinn Aaron Wan-Bissaka ætlar að vera áfram hjá United.
„Auðvitað verður Aaron Wan-Bissaka áfram. Þetta er hópurinn sem við verðum með fram í janúar hið minnsta,“ segir Ten Hag.
Hann útilokaði þó ekki að sækja leikmann ef stórt tækifæri gæfist. „Þegar það kemur stórt tækifæri þá þarf maður alltaf að vera vakandi hjá þessu risafélagi.“
Það er spurning hvort ummæli Ten Hag þýði að Cristiano Ronaldo verði áfram hjá United. Hann hefur verið orðaður burt í allt sumar.