Framherjinn Alexander Isak varð fyrir helgi dýrasti leikmaður í sögu Newcastle, er hann gekk í raðir félagsins frá Real Sociedad fyrir um 60 milljónir punda. Hann gæti spilað sinn fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.
Isak er 22 ára gamall sænskur framherji en fjöldi stórliða hefur fylgst með framgöngu hans á Spáni.
Hann er nú kominn með atvinnuleyfi á Englandi og má því mæta Liverpool með Newcastle í kvöld.
Þetta eru afar jákvæðar fréttir fyrir Eddie Howe, stjóra Newcastle, þar sem Callum Wilson verður fjarverandi í kvöld. Þá er líklegt að Allan Saint-Maximin verði það einnig.
Leikur Liverpool og Newcastle hefst klukkan 19 í kvöld að íslenskum tíma.