Það er ósætti innan herbúða ÍA með fyrirkomulag úrslitakeppni 2. deildar kvenna.
Í deildinni var aðeins leikin einföld umferð. Tólf lið taka þátt. Nú verður liðunum skipt upp í tvo hluta, líkt og gert verður eftir 22 leiki í efstu deild karla í fyrsta sinn í ár.
ÍA fær aðeins tvo heimaleiki í úrslitakeppni sex efstu liða. Liðið leikur því þrjá á útivelli. Ofan á það raðast mótið svo að ÍA lék við öll hin liðin í efri hlutanum á útivelli.
ÍA fær því tvo heimaleiki og átta útileiki gegn hinum fimm bestu liðum deildarinnar.
Geir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri ÍA, ritaði pistil, þar sem hann lýsir ósætti við KSÍ vegna málsins. Hann má sjá hér að neðan.
ÍA án heimavallar …. næstum því!
Í skugga annarra móta í knattspyrnu fer fram keppni í Íslandsmóti í 2. deild kvenna. Keppnin er hluti af skipulögðu mótahaldi Knattspyrnusambands Íslands og um það gilda ávallt lögmál um jafnræði og sanngirni. Forysta KSÍ hefur vakið athygli á mikilvægi keppni kvenna í knattspyrnu, en eitt eru orð annað efndir.
Hafin er úrslitakeppni í 2. deild kvenna sem stjórn KSÍ ákvað að yrði með nýju fyrirkomulagi á þessu ári. Eftir einfalda umferð í landsdeild 12 liða (sem er ekki heimilt skv. lögum KSÍ, þ.e. einföld umferð) verður leikin úrslitakeppni 6 efstu liða með einfaldri umferð þar sem stig liðs úr fyrra hluta fylgja því áfram. Einhverjum fannst við hæfi að nota sama fyrirkomulag og verður í fyrsta sinn notað í Bestu deild karla nú í haust, snjallt hefði einhver talið. Þegar í ljós kom að fyrirkomulagið var ekki vitlaust heldur arfavitlaust var svar við aðildarfélag, þið gerðuð ekki athugasemdir eða kærðuð ekki innan fimm daga þegar skipulag mótsins var birt. Aðildarfélag gat sem sagt ekki treyst því að vandað væri til verka, allra síst á lægsta stigi í keppni kvenna.
ÍA hafnaði í 5. sæti eftir einfalda umferð í fyrra hluta mótsins og komst því í úrslitakeppni sex efstu liða (einöld umferð þýðir einn leikur gegn hverjum félagi í deildinni annað hvort á heimavelli eða útivelli). Í ljós kom að ÍA lék á útivelli í fyrra hluta mótsins við öll þau önnur félög (,,þau bestu“) sem leika í 6 liða úrslitakeppni en tvö efstu félögin í henni komast að lokum upp í 1. deild kvenna. ÍA fær 2 heimaleiki í úrslitakeppninni (við lið nr. 4 og 6) og 3 útileiki (við lið nr. 1, 2 og 3). ÍA leikur því alls við þessi félög 2 leiki á heimavelli en 8 leiki á útivelli í Íslandsmótinu í knattspyrnu 2022. Já, 2 leiki á heimavelli en 8 leiki á útivelli. Við efstu þrjú liðin fyrir byrjun úrslitakeppni verða allir leikir Í Íslandsmóti eða 6 alls á útivelli. Þetta er ekki aðeins ósanngjarnt, þetta á hreinlega ekkert skylt við vel skipulagða keppni þar sem allir ganga jafnir til leiks. Þrátt fyrir ábendingar ÍA fyrir upphaf úrslitakeppni skv. algerlega óboðlegu fyrirkomulagi voru skilaboð KSÍ í reynd bara, ekki verður vikið frá þessu, enda gerðuð þið engar athugasemdir í vor. Það voru tækifæri til breytinga en best þótti að gera ekki neitt, best væri að halda vitleysunni áfram. ÍA hóf leik um sl. helgi og gerði jafntefli á útivelli. Áfram verður barist til sigurs þó lítið fari fyrir sanngirni í skipulagi mótsins.