Það var líf og fjör í ensku úrvalsdeildinni í kvöld en fimm leikir voru spilaðir og voru stórlið í eldlínunni.
Erling Haaland raðar inn mörkum fyrir Manchester City þessa dagana og skoraði þrennu í kvöld er liðið mætti Nottingha Forest.
Haaland skoraði þrennu í fyrri hálfleik og bættu þeir Joao Cancelo og Julian Alvarez við mörkum í seinni hálfleik.
Manchester City vann leikinn 6-0 en enginn leikmaður í sögu deildarinnar hefur byrjað jafn vel og Haaland sem kom frá Dortmund í sumar.
Norðmaðurinn hefur gert níu mörk í fyrstu fimm leikjum sínum og hefur enginn í sögunni byrjað jafn vel.
Ótrúleg byrjun hjá þessum stórkostlega leikmanni sem ætlar svo sannarlega að skrá sig í sögubækurnar.