Fulltrúar Hector Bellerin, leikmanns Arsenal, eru í viðræðum við enska félagið um að rifta samningi leikmannsins.
Hægri bakvörðurinn lék með Real Betis á láni á síðustu leiktíð. Hann hefur ekki áhuga á að spila frekar með Arsenal. Spánverjinn á eitt ár eftir af samningi sínum í Norður-Lundúnum.
Bellerin gæti farið til Barcelona. Það fer þó mikið eftir því hvort Pierre-Emerick Aubameyang, fyrrum liðsfélagi hans hjá Arsenal, fari frá Barcelona.
Framherjinn þyrfti að fara til að Börsungar gætu skráð Bellerin og borgað honum laun.
Aubameyang hefur verið sterklega orðaður við Chelsea undanfarnar vikur. Félögin hafi hins vegar ekki enn komist að samkomulagi. Ekki er talið að það verði erfitt að semja við Aubameyang sjálfan ef félögin ná samkomulagi.
Sem stendur biður Barcelona um of mikið fyrir Aubameyang. Sú leið gæti verið farin að sóknarmaðurinn verði lánaður til Chelsea.