Streymisveiturisarnir Amazon og Netflix slást nú um réttinn á að skyggnast á bakvið tjöldið hjá Manchester United og sýna frá því í nýjum þáttaröðum.
Slíkir þættir hafa notið mikilla vinsælda undanfarið. Má þar nefna „All or Nothing“ seríur Amazon um Arsenal, Tottenham og Manchester City, sem og þætti Netflix um Sunderland.
Samkvæmt enska götublaðinu The Sun er United nú efst á óskalista bæði Amazon og Netflix, sem vilja framleiða þætti um félögin. Bæði fyrirtækin eru til í að borga ansi háar upphæðir fyrir aðgang að félaginu.
Talið er að uppbygging United undir stjórn Erik ten Hag heilli framleiðendur. Hann tók við stjórn liðsins í sumar.
Þá segir einnig í frétt The Sun að Amazon ætli sér að gera þáttaröð um næstu leiktíð hjá Newcastle. Nýir eigendur frá Sádi-Arabíu keyptu félagið í fyrra og má búast við miklum breytingum þar á næstunni.