Breiðablik og Valur mætast í úrslitaleik Mjólkurbikars kvenna á laugardag. Um sigursælustu lið bikarsins er að ræða, með þrettán titla hvort.
Natasha Anasi, leikmaður Breiðabliks, ræddi við 433.is í höfuðstöðvum KSÍ í aðdraganda leiksins.
„Ég er rosalega spennt,“ segir Natasha.
Hún er ekki að spila sinn fyrsta bikarúrslitaleik því árið 2016 mætti hún Blikum með ÍBV. Þar var hún í tapliði. „Þegar það er bikar að vinna eru tilfinningarnar alltaf miklar. 2016 var ég með ÍBV á móti Breiðablik. Nú er ég með Breiðablik að spila á móti Val, það er svolítið fyndið.“
Hún segir Valsliðið afar sterkt. „Þær eru rosalega góðar, skipulagðar og með mikla reynslu. Við erum ekki með eins mikla reynslu en með alveg nógu gott lið til að stríða þeim á vellinum.“
Hún var spurð út í það hvort Blikaliðið hafi gert eitthvað skemmtilegt saman í aðdraganda leiks. „Þú gerir alltaf eitthvað skemmtilegt en þú vilt ekki breyta of mikið.“
Viðtalið í heild má sjá hér að neðan.