Það eru fá félög ef einhver í sumar sem hafa verið jafn virk á markaðnum og Nottingham Forest.
Forest tryggði sér sæti í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og hefur svo sannarlega bætt við sig leikmönnum í sumar.
Nú eru nýliðarnir að fá Serge Aurier, fyrrum leikmann Tottenham, samkvæmt mörgum miðlum en hann lék einnig með Paris Saint-Germain á sínum tíma.
Aurier er öflugur bakvörður sem stóð sig allt í lagi á Englandi en hann var síðast hjá Villarreal þar sem meiðsli settu strik í reikninginn.
Aurier er fáanlegur á frjálsri sölu og verður 19. leikmaðurinn sem gengur í raðir Forest í sumar sem er í raun ótrúleg staðreynd.
Forest hafði áður sýnt Willy Boly hjá Wolves áhuga en hann er ekki til sölu í sumar.