Það muna eflaust margir eftir Charlie Morgan, boltastráknum sem tafði leik Swansea gegn Chelsea árið 2013 og tókst að pirra Eden Hazard svo mikið að Belginn var rekinn af velli.
Morgan var á þeim tíma 17 ára gamall og var boltastrákur á leiknum. Á einum tímapunkti hélt hann boltanum undir sér til að tefja. Hazard reyndi að sparka boltanum undan honum en endaði á að sparka óvart í drenginn. Fyrir það var hann rekinn af velli.
Hinn 26 ára gamli Morgan á í dag vodka-fyrirtæki sem er metið á um 40 milljónir punda. Hann stofnaði það árið 2016 með félaga sínum í háskóla. Kallast fyrirtækið Au Vodka.
Morgan hefur gengið það vel að hann er á lista Sunday Times yfir ríkt fólk árið 2022. Frægt fólk á borð við Ronaldinho og Floyd Mayweather hafa þá birt myndir af sér með vodkað hans.
Mayweather var svo hrifinn af Au Vodka að hann setti sig í samband við Charlie Morgan er hann var staddur í Wales. Hann fékk nokkrar flöskur og tók mynd af sér með þær, gegn því að fyrirtækið myndi vinna verkefni með honum er það kæmi til Bandaríkjanna.
Faðir Morgan er viðskiptamaðurinn Martin Morgan, forstjóri Swansea og eigandi Morgan-hótelkeðjunnar.
Au Vodka framleiðir um 35 þúsund flöskur á dag og gengur, sem fyrr segir, afar vel.