Antony, kantmaður Ajax, hefur verið sterklega orðaður við Manchester United undanfarið.
Brasilíumaðurinn ýtti undir orðróma um að hann gæti endað á Old Trafford í gær. Bróðir hans birti þá mynd af þeim í góðum gír að sjá United vinna 2-1 sigur á Liverpool.
Jadon Sancho kom United yfir á 16. mínútu leiksins eftir vandræðagang James Milner og Virgil van Dijk í vörn Liverpool. Staðan í hálfleik var 1-0.
Marcus Rashford tvöfaldaði forskot heimamanna á 53. mínútu. Útlitið orðið afar gott fyrir Rauðu djöflanna. Mohamed Salah minnkaði muninn fyrir Liverpool þegar um tíu mínútur lifðu venjulegs leiktíma. Nær komust gestirnir þó ekki.
Ajax hafnaði tilboði United upp á 80 milljónir evra á dögunum. Það er ekki ólíklegt að enska félagið komi með nýtt tilboð.