Bæði stuðningsmenn Everton og Chelsea tóku eftir því að Anthony Gordon, kantmaður fyrrnefnda liðsins, hefur tekið nafn Everton af Instagram-reikningi sínum.
Efst á Instagram-reikningi fólks eru gjarnan gefnar upp helstu upplýsingar um viðkomandi. Þar sagðist Gordon leika með Everton. Hann hefur nú fjarlægt það.
Gordon hefur verið sterklega orðaður við Chelsea undanfarið. Everton hefur þegar hafnað tilboði félagsins, sem hljóðaði upp á um 45 milljónir punda í leikmanninn. Fyrrnefnda félagið hefur haldið því fram að leikmaðurinn sé ekki til sölu.
Talið er að Chelsea sé til í að borga allt að 60 milljónir punda fyrir Gordon.
Gordon er aðeins 21 árs gamall. Hann var þó fastamaður í liði Everton á síðustu leiktíð og spilaði 35 leiki. Englendingurinn hefur spilað alla þrjá leiki Everton í ensku úrvalsdeildinni það sem af er þessari leiktíð.
Gordon á að baki fjóra leiki fyrir U-21 árs landslið Englands, þar sem hann hefur skorað þrjú mörk.