Leicester City mun ekki lækka verðmiðann á skotmarki Chelsea, Wesley Fofana, þrátt fyrir að hann hafi verið uppi í stúku er liðið tapaði gegn Southampton um helgina. Sky Sports greinir frá þessu.
Hinn 21 árs gamli Fofana vill ólmur komast frá Leicester til Chelsea. Síðarnefnda félagið hefur boðið tvisvar í Frakkann. Hærra boðið var 60 milljónir punda, sem er töluvert frá verðmiða Leicester.
Leicester vill að Chelsea jafni að minnsta kosti metið yfir það mesta sem eytt hefur verið í varnarmann í sögunni. Það met á Manchester United sem stendur. Félagið keypti Harry Maguire frá Leicester á 80 milljónir punda árið 2019.
Búist er við því að Chelsea muni koma með nýtt og betra tilboð í Fofana.
Fofana er miðvörður sem hefur verið á mála hjá Leicester síðan 2020. Þar áður var hann hjá Saint-Etienne í heimalandinu.