Emil Pálsson hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna. Hann staðfestir þetta á samfélagsmiðlum.
Emil fór í hjartastopp og hneig niður í leik með norska liðinu Sogndal í upphafi nóvembermánaðar á síðasta ári. Segja má að hann hafi verið dáinn í tæpar fjórar mínútur eftir að hafa hnigið niður en endurlífgunartilraunir báru hins vegar árangur.
Emil byrjaði aftur að æfa knattspyrnu en fór svo aftur í hjartastopp á æfingu með FH í maí. Eftir tvö hjartastopp á sex mánuðum hefur hann ákveðið að láta gott heita í boltanum.
„Fótbolti hefur alltaf verið stærsta ástríðan í lífi mínu og ég er stoltur af ferlinum sem ég er að skilja eftir mig með þessu. Að spila atvinnumennsku eru forréttindi og ég naut hverrar mínútu,“ segir Emil í færslu á Instagram.
„Ég vil sérstaklega þakka liðsfélögum mínum, sem margir eru orðnir nánustu vinir mínir til þessa dags, og þjálfurum og starfsfólki fyrir að hafa trú á mér.“
View this post on Instagram