Troy Deeney, framherji Birmingham, hefði elskað það að spila gegn Lisandro Martinez er hann var leikmaður í ensku úrvalsdeildinni.
Deeney gerði garðinn frægan með Watford í mörg ár og var lengi erfiður að eiga við í efstu deild Englands.
Martinez hefur verið á milli tannana á fólki í sumar en hann kom til Man Utd í sumar frá Ajax og er 175 sentímetrar á hæð.
Það er ansi lítið miðað við miðvörð en hann var tekinn af velli í síðustu umferð í hálfleik er Man Utd tapaði 4-0 gegn Brentford.
,,Sá sem ég vorkenni mest er Lisandro Martinez, eins mikið og ég hefði viljað spila gegn honum vegna hæðarinnar,“ sagði Deeney.
,,Hann er 175 sentímetrar á hæð og þú verður alltaf í vandræðum í ensku úrvalsdeildinni, sérstaklega gegn liðum eins og Brentford. Hann er ekki vanur enskum fótbolta.“
,,Man Utd tapaði hins vegar ekki 4-0 vegna Martinez, þeir létu boltann ekki ganga.“