Arnór Sigurðsson bæði skoraði og lagði upp fyrir lið Norrköping í dag sem mætti AIK í sænsku úrvalsdeildinni.
Arnór var í byrjunarliði Norrköping í 4-2 tapi á heimavelli líkt og Arnór Ingvi Traustason.
Arnór skoraði fyrra mark Norrköping undir lok leiks og lagði svo upp annað markið á Maic Sema stuttu síðar.
Andri Lucas Guðjohnsen var á varamannabekk Norrköping en kom inná sem varamaður á 57. mínútu í tapinu.
Sveinn Aron Guðjohnsen spilaði 20 mínútur fyrir Elfsborg í sömu deild sem gerði 1-1 jafntefli við Varnamo.
Í Noregi byrjaði Hólmbert Aron Friðjónsson fyrir Lilleström og spilaði hálfleik er liðið vann 3-0 sigur á Sandefjord.
Kristall Máni Ingason lék um hálftíma fyrir Rosenborg sem vann á sama tíma 2-1 sigur á Álasund.
Böðvar Böðvarsson lagði upp mark fyrir Trelleborg í B-deildinni í Svíþjóð er liðið vann Dalkurd, 4-2. Böðvar lagði upp fyrsta mark liðsins en Trelleborg lenti 2-0 undir á heimavelli og sneri leiknum sér í vil.
Í sömu deild lék Alex Þór Hauksson á miðju Öster sem vann góðan 3-0 sigur á Brage á útivelli.
Hörður Björgvin Magnússon lék með liði PAOK í Grikklandi og stóð vaktina í hjarta varnarinnar er liðið vann Ianikos 1-0.
Annar varnarmaður eða Hjörtur Hermannsson spilaði með Pisa í B-deildinni á Ítalíu er liðið gerði 2-2 jafntefli við Como.