Það vakti athygli í leik Breiðabliks og Víkings Reykjavíkur í gær að boltasækjarar virtust lengi að koma boltanum í leik þegar leið á leikinn.
Leikið var á heimavelli Blika og endaði leikurinn 1-1. Úrslitin hentuðu Blikum töluvert betur, enda á toppi deildarinnar. Einhverjir vilja því meina að heimamenn hafi fyrirskipað boltasækjurum að haga sér svona.
„Að nota boltasækjara á þennan hátt er eins óíþróttamannslegt og það verður. Vona að menn sem fyrirskipa þetta séu stoltir af sér,“ skrifar Heimir Gunnlaugsson, formaður knattspyrnudeildar Víkings á Twitter.
Leikmenn og þjálfarar Víkings voru pirraðir á framgangi boltasækjanna í leiknum og létu reiði sína nokkrum sinnum í ljós.
Þetta virðist vera algengt vandamál í Bestu deildinni, ef marka má orð fleiri Twitter-notenda.
„Tilgangslaust þetta boltasækja-dæmi í Bestu. Krökkunum sagt að haga sér á þann hátt að mótherji heimaliðs tapi á að hafa þá og fá í staðinn hótanir um barsmíðar og orðbragð sem er ekki hafandi eftir. Þetta eru 9-12 ára gömul börn! Breytingar takk,“ skrifar Stefanía Sigurðardóttir, íþróttafræðingur og þjálfari. Hún er eiginkona Birkis Márs Sævarssonar, leikmanns Vals.