Í dag var dregið í lokaumferð undankeppni Sambandsdeildar UEFA þar sem Víkingur Reykjavík var í pottinum. Takist liðinu að bera sigur úr býtum í einvígi sínu í þriðju umferðinni gegn Lech Poznan gæti beðið þeirra leikur gegn Malmö frá Svíþjóð eða F91 Diddeleng frá Lúxemborg.
Víkingar mæta pólska liðinu Lech Poznan í þriðju umferð undankeppninnar í tveimur leikjum og fer sá fyrri fram á Víkingsvelli á fimmtudaginn næstkomandi. Seinni leikur liðana fer fram í Póllandi viku seinna.
Víkingar mættu Malmö í undankeppni Meistaradeildar Evrópu og tapaði því einvígi með naumum mun. Það yrði því ansi sérstakt myndu liðin mætast á ný í undankeppni Sambandsdeildarinnar.
Malmö er hins vegar einnig á meðal þátttökuþjóða í undankeppni Evrópudeildarinnar og á þar einvígi gegn Sivasspor. Það gæti því haft áhrif á lokaumferð undankeppni Sambandsdeildarinnar og bara að bíða og sjá hvernig fer.
Vinni Víkingar einvígi sitt í þriðju umferð sem og í lokaumferðinni er sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar gulltryggt.