Eins og alþjóð veit unnu Englendingar sigur á Þjóðverjum í úrslitaleik EM kvenna á Wembley í gær. Ensku fótboltakonurnar unnu hug og hjörtu landsmanna, og í raun heimsbyggðarinnar allrar, með frábærri frammistöðu en um er að ræða fyrsta stóra landsliðstitilinn sem enskt landslið vinnur frá því að England vann heimsmeistaratitilinn í karlaflokki árið 1966 en þá var einnig spilað á enskri grundu.
Flestir bjuggust því við því að sigrinum yrði fagnað rækilega en nú bendir flest til þess að hátíðarhöldin verði í hógværari kantinum og yfir því eru margir ævareiðir.
Enska landsliðið hefur til að mynda ekki verið boðað til mótttöku í forsætisráðherrabústaðnum við Downingsstræti 10 en Boris Johnson, forsætisráðherra er viðstaddur útför í Norður-Írlandi. Þá var ekki keyrt með þjóðhetjurnar í opinni rútu í gegnum London. Þannig var heimsmeistaraliði Englendinga í rugby fagnað árið 2003 sem og sigursælu krikketlandsliðinu árið 2005.
Aðeins var boðað til viðburðar á Trafalgartorgi þar sem sjö þúsund stuðningsmenn fögnuðu sigurvegurunum og sýndi BBC aðeins frá viðburðinum í um 20 mínútur.
Fjölmargir Englendingar eru ævareiðir vegna þessarar meðferðar á landsliðskonunum. Afsökunin fyrir þessum hógværu fagnaðarlátum er sögð vera öryggismál en enska knattspyrnusambandið og Sadiq Khan, borgarstjóri Londona, hafa uppskorið mikla gagnrýni vegna málsins og hafa samfélagsmiðlar logað vegna þess.
Tracey Crouch, fyrrum íþróttamálaráðherra, gagnrýndi fyrirkomulagið harðlega í viðtali við Daily Mail. „Ef við ætlum að stuðla að jafnrétti þá verðum við að gera betur,“ sagði Crouch.