Arnór Ingvi Traustason er á leið aftur í sænska boltann samkvæmt heimildum Expressen þar í landi.
Arnór hefur undanfarið ár spilað með New England Revolution í Bandaríkjunum og á að baki 39 leiki fyrir liðið í MLS-deildinni.
Arnór er 29 ára gamall miðjumaður og á að baki 44 leiki fyrir Ísland en hann þekkir mjög vel til Skandinavíu og sænsku deildarinnar.
Samkvæmt Expressen er Norrköping að vinna í því að fá Arnór í sínar raðir en hann lék með liðinu frá 2014 til 2016.
Norrköping er ekki eina sænska liðið sem Arnór spilaði með en hann var einnig hjá Malmö frá 2018 til 2020.
Samkvæmt heimildum blaðsins er Arnór búinn að ná munnlegu samkomulagi við Norrköping og eru viðræður við New England í fullum gangi.