Það er í myndinni hjá Barcelona að fá Lionel Messi aftur til félagsins frá franska félaginu Paris Saint-Germain.
Þetta segir forseti félagsins Joan Laporta en Messi lék með Barcelona í 21 ár áður en hann var neyddur til að yfirgefa félagið í fyrra.
Messi er einn allra besti leikmaður sögunnar og hefur unnið Ballon d’Or verðlaunin sjö sinnum en Börsungar gátu ekki framlengt samning hans vegna fjárhagsstöðu félagsins.
Laporta lofar stuðningsmönnum Barcelona því að hann muni gera sitt til að fá þennan 35 ára gamla leikmann aftur í raðir liðsins.
,,Ég hef þekkt Messi síðan hann var krakki og ég elska hann. Hann er besti leikmaður í sögu félagsins og ég mun gera allt sem ég get svo hann geti endað ferilinn sem best í treyju Barcelona,“ sagði Laporta.
,,Ég væri til í að fá hann til baka. Það verður ekki auðvelt en ef við förum rétt að þá er það mögulegt. Messi hefur verið mikilvægasti leikmaður í sögu Barceona.„