Tottenham er búið að bjóða Inter Milan að fá til sín bakvörðinn Sergio Reguilon fyrir næsta tímabil.
Calciomercato fullyrðir þessar fregnir og segir að yfirmaður knattspyrnumála Tottenham, Fabio Paratici, sé búinn að ræða við ítalska félagið.
Reguilon á enn þrjú ár eftir af samningi sínum við Spurs en hann er ekki inni í myndinni hjá Antonio Conte, stjóra enska liðsins.
Samkvæmt öðrum fregnum er Reguilon einnig á óskalista Sevilla en hann er spænskur og þekkir til deildarinnar þar.
Reguilon lék með Sevilla í láni frá Real Madrid 2019/2020 og spilaði þá 31 leik og skoraði tvö mörk.
Reguilon á að baki 52 deildarleiki fyrir Tottenham en hann kom til félagsins fyrir tveimur árum.