Brasilíumaðurinn Neymar mun mæta fyrir rétt í haust vegna hugsanlegs spillingarmáls í tengslum við félagaskipti hans frá Santos til Barcelona árið 2013.
Markaðsfyrirtækið DIS, sem átti 40% hlut í Neymar vilja meina að leikmaðurinn og hans fulltrúar hafi svikið sig. Fyrirtækið segir að Neymar og Börsungar hafi farið á bak við sig.
Saksóknarar í málinu munu fara fram á tveggja ára fangelsisdóm yfir Neymar og 8,4 milljóna punda í sekt. DIS vildi fimm ára dóm á Neymar og bann frá knattspyrnu að eilífu.
Þá telja saksóknarar að svikist hafi verið undan því að borga sjö milljónir punda í skatta í kringum félagaskiptin, þar séu fyrrum forsetar Barcelona, Rosell og Josep Maria Bartomeu og fyrrum þjálfari Santos einnig sekir.
Barcelona borgaði á sínum tíma 71,5 milljónir punda fyrir Neymar. 33 milljónir runnu hins vegar beint til foreldra leikmannsins. Í kjölfar skiptanna voru Barcelona og Bartomeu ákærð fyrir skattsvik.
Neymar mætir fyrir rétt í október, aðeins nokkrum vikum áður en heimsmeistaramótið í Katar hefst.